Starfið

Verkefni

Starf Women Power felur í sér að skapa umhverfi þar sem konur hafa möguleika á að framkvæma hugmyndir sínar og skapa sér efnahagslegt sjálfstæði.

sTARFIÐ

Umönnun barna og heimilisstörf fellur í fremur konur en karla, sér í lagi í efnaminni ríkjum. Þegar tryggja á grundvöll fyrir frumkvöðlastarf og atvinnuþátttöku kvenna er því mikilvægt að góð dagvistun sé til staðar fyrir börnin í samfélaginu. 

Að höfðu samráði við bæjaryfirvöld styrkti hópur Íslendinga, sem í dag eru margir meðlimir Women Power byggingu leikskólans í Bashay. Við eftirgrennslan töldu bæjaryfirvöld mesta þörf á nýjum leikskóla í nágrenni TanzanIce Farm þar sem hægt væri að bjóða börnum upp á öruggan dvalarstað þar sem þau gætu fengið góða menntun og tækifæri til að þroskast í gegnum leik og starf. Leikskólinn var byggður árið 2011 og opnaður árið 2012. Women Power leggur mikið upp úr því að vinna með bæjaryfirvöldum við að halda leikskólanum við og stuðla að símenntun starfsfólks. Það skiptir miklu máli að börn hafi aðgang að öruggri dagvistun á meðan foreldrar þeirra stunda sína vinnu, þetta er ekki síst mikilvægt fyrir framgang og tækifæri kvenna.

Styrkur frá Utanríkisráðuneytinu gerði Women Power kleift að endurhanna leikskólann árið 2019 og aðlaga hann betur að þörfum þeirra barna sem þangað koma. Einnig unnu samtökin með starfsfólki Hjallastefnunar á Íslandi við að innleiða hugmyndafræði Hjallastefnunar í leikskólann svo að hægt væri að kynna börn fyrir jafnréttisfræðslu frá unga aldri og hvetja þau til nýsköpunar. 

Women Power trúa því að leikskólastarfið skipti höfuðmáli, bæði til að tryggja það að konur hafi fleiri tækifæri til vinnu utan heimilisins og einnig til að tryggja börnum samfélagsins menntun og stuðla að skapandi hugsun í örvandi umhverfi. Framtíðarsýn samtakanna er að geta eflt starf leikskólans enn frekar. 

Styrkir til Women Power nýtast til að styðja við uppbyggingu leikskólans og að búa börnunum öruggt umhverfi og útvega þeim næringaríkan mat. Þegar samtökin víkka starf sitt út til annarra svæða verður það í forgangi að tryggja sambærilegt leikskólastarf þar.

sTARFIÐ

Til þess að styðja enn betur við nýsköpun og frumkvöðlastarf kvennanna í Bashay þorpi settu samtökin á fót lánasjóð kvenna árið 2016. Konur á svæðinu geta sótt um lán í sjóðinn sem bera lága vexti til að vinna að framgangi viðskiptahugmynda sinna. Fyrir tilstilli styrks frá Alheimsauði var hægt að setja á laggirnar lítinn lánasjóð og er honum stýrt af konum á svæðinu undir merkjum Women Power Bashay. Fjöldi kvenna hefur fengið lán úr sjóðnum til að framkvæma hugmyndir sínar og sjóðurinn hefur á síðustu árum vaxið og dafnað.

Mikilvægur hluti af starfi Women Power er að leggja sjóðnum til fjármagn til þess að lána konum í samfélaginu og vera þannig hluti af breytingarafli, bæði í lífi kvennanna sem og samfélagsins alls. 

Nokkur dæmi um starfsemi sem konur í Bashay hafa sett á laggirnar í kjölfar þess að hafa sótt námskeið og/eða fengið lán úr sjóðnum:

  • Ekkja með þrjú börn og fjölda barnabarna, sem hún þarf oft að gæta, nýtti  lán sem hún hlaut úr sjóði Women Power til að kaupa notaðar flíkur en þegar hún hefur tækifæri til fer hún um þorpið og selur flíkurnar í heimasölu.
  • Ekkja með sjö börn og nokkur barnabörn náði að setja á laggirnar verslun og fá rafmagn í verslunina í kjölfar þess að sækja námskeið Women Power. Námskeiðin sagði hún ekki bara hafa veitt sér nýja þekkingu heldur líka hugrekki og trú á sjálfri sér. Hún sagði ómetanlegt að hafa kynnst hinum konunum á námskeiðunum sem gátu skipst á reynslu og hvatningu.
  • Einstæð móðir með fjögur börn opnaði hárgreiðslustofu eftir að hafa fengið lán úr sjóðnum. Lánið nýtti hún til að steypa gólfplötu í rýmið sem hún nýtir fyrir stofuna.. Hún selur jafnframt gervihár og aðrar hársnyrtivörur.
sTARFIÐ

Næsta verkefni Women Power er því að undirbúa starfsemi frumkvöðlaseturs. Frumkvöðlasetrið mun hýsa frumkvöðlanámskeið og færniþjálfun fyrir konurnar, en það mun jafnframt þjóna þeim tilgangi að vera aðsetur fyrir konurnar til að hittast, deila þekkingu, vinna að sínum verkefnum og sækja leiðsögn og stuðning hjá hvorri annarri eða konum frá Íslandi eða annars staðar úr heiminum. Í setrinu er stefnt að því að bjóða upp á aðgengi að tölvum, prentara og nettengingu til þess að tryggja góða aðstöðu fyrir konurnar til þess að vinna að  hugmyndum sínum og koma þeim í framkvæmd og að vera í tengslum við konur annars staðar í heiminum.

Búið er að útvega húsnæði fyrir frumkvöðlasetrið en það á eftir að innrétta það. Auk þess viljum við tryggja aðkomu hæfra leiðbeinenda á sviði frumkvöðlafræða, fjármálalæsis, markaðssetningar og sjálfstyrkingar sem hefðu það verkefni að styðja við þróun viðskiptahugmynda kvennanna og fylgja þeim eftir. Með því móti aukast líkur á sköpun nýrra starfa, hagur kvennanna og fjölskyldna þeirra batnar og þar með  dregur úr fátækt.

Framlög til Women Power nýtast því meðal annars til að byggja upp frumkvöðlasetur og styðja þannig við aukið sjálfstæði kvenna í tansaníska þorpinu Bashay.

sTARFIÐ

Women Power byggir á þeirri hugmyndafræði að besta leiðin til að hjálpa efnalitlum samfélögum sé að styrkja konur, en fleira þarf til ef samfélög eiga að komast út úr fátæktargildrum. Þar á meðal er fæðuöryggi. Hugmyndafræði Women Power byggir á því að ein af mikilvægustu grundvallar forsendum valdeflingar kvenna sé að stuðla að fæðuöryggi alls samfélagsins. 

Á stöðum eins og í Bashay  í Tansaníu getur jarðvegurinn verið frjór og möguleiki á að rækta korn og grænmeti. Veðurfar getur hins vegar verið óstöðugt og hætta á uppskerubresti ef ekki er rétt farið að. Women Power vill því beita sér fyrir því að aðstoða smábændur og fjölskyldur þeirra við að koma upp góðum aðstæðum fyrir matvælaræktun til að tryggja fæðuöryggi fjölskyldna. Það sem þarf til þess er meðal annars:

Vatn: 

Í norður Tanzaníu er umhverfið hálf þurr gresja (e. semiarid) og því líður langur tími sem ekki kemur dropi úr lofti milli þess sem rignir mikið á rigningartímum, sem eru alla jafna tvisvar á ári. Stöðugur aðgangur að vatni er því mikilvægur til að íbúar – sem flestir eru smábændur – geti ræktað korn og grænmeti fyrir fjölskylduna. Ef rignir of lítið eða of mikið verður uppskerubrestur og þá er hungur yfirvofandi því geti smábændur ekki ræktað ofan í fjölskylduna þá er heldur enginn peningur til að kaupa mat handa fjölskyldunni.  

Aðgangur að borholu eða áreiðanlegri vatnsuppsprettu er því grunnurinn að fæðuöryggi. Til að nýta vatnið sem best er einnig hægt að nota s.k. dropavökvunarkerfi en það byggir á því að vökva grænmetið/kornið nægjanlega en þó án þess að sóa vatni. Þannig eru settar upp pípur með litlum götum og þegar sólin sest og það byrjar aðeins að kólna er vatninu hleypt á og dropar beint að plöntunum.

Landrækt:

Þar sem landslagið er hæðótt geta rigningarnar, sem oft eru gríðarlega miklar, skolað burt yfirborðs jarðvegi sem alla jafna er frjór jarðvegur. Ef ekkert er að gert gerir landeyðing fljótt vart við sig. Með tiltölulega litlum tilkostnaði er hægt að gera litla skurði þvert á hlíðarnar og hægja þannig á hraða vatnsins eftir yfirborðinu og þannig láta það síga rólega inn í jarðveginn. 

Búgarðurinn TanzanIce Farm er í Bashay, en hann er í eigu Önnu Elísabetar, stofnanda Women Power, og Viðars, eiginmanns hennar. Þar hefur þessari aðferðafræði verið beitt með góðum árangri; það sem áður var auð rauð jörð er nú grænt og ræktað land. Þótt aðferðin sé ekki flókin krefst hún nákvæmni og þekkingar sem þarf að miðla til bænda. Í samstarfi við TanzanIce Farm vilja Women Power koma þekkingunni áfram til bænda á svæðinu og tryggja að hún haldist áfram í samfélaginu.

Framlög til Women Power fara meðal annars í að tryggja aðgengi að hreinu vatni, fjárfesta í búnaði til að nýta vatnið og landið við ræktun matar og þannig tryggja að börnin á leikskólanum í Bashay fái hollan og næringarríkan mat og að samfélagið allt búi við fæðuöryggi til frambúðar. Þegar Women Power hefur starfsemi á öðrum svæðum mun fæðuöryggi áfram vera eitt af grundvallaratriðum í starfi samtakanna.

Aðgangur að borholu eða áreiðanlegri vatnsuppsprettu er því grunnurinn að fæðuöryggi. Til að nýta vatnið sem best er einnig hægt að nota s.k. dropavökvunarkerfi en það byggir á því að vökva grænmetið/kornið nægjanlega en þó án þess að sóa vatni. Þannig eru settar upp pípur með litlum götum og þegar sólin sest og það byrjar aðeins að kólna er vatninu hleypt á og dropar beint að plöntunum.

Viltu styrkja gott málefni?

Með stuðningi getum við stækkað starfsemina

Scroll to Top