Nokkur orð

Um Women Power

Samtökin

Um Women Power

Women Power eru félagasamtök sem vinna á heildstæðan hátt að valdeflingu kvenna. Samtökin voru stofnuð út frá vináttu og trausti milli Önnu Elísabetar, stofnanda samtakanna, og magnaðra kvenna í Bashay þorpi í Tansaníu. Grunnurinn að öllu starfi Women power er Kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna (CEDAW) ásamt Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna en samtökin byggja á þeirri hugmyndafræði að besta leiðin til að hjálpa efnalitlum samfélögum sé að efla konur. Konur eru stærsta ónýtta auðlind heims því þær hafa víða ekki tækifæri til nýta sína hæfileika, reynslu og þekkingu. Valdefling kvenna hefur því ekki aðeins lífsbreytandi áhrif á þær heldur líka fyrir samfélögin sem þær búa í. 

Starf Women Power felur í sér að skapa umhverfi þar sem konur hafa möguleika á að framkvæma hugmyndir sínar og skapa sér efnahagslegt sjálfstæði. Til þess að búa til slíkt umhverfi þarf að tryggja ákveðnar grunnstoðir. Ein af þessum grunnstoðum er örugg dagvistun fyrir börn þar sem boðið er upp á góða menntun, skapandi umhverfi og jafnréttisfræðslu frá unga aldri. Önnur grunnstoð er fæðuöryggi en til þess að stuðla að því þarf að tryggja aðgengi að vatni, verkfærum og öðru sem þarf til þess að hægt sé að nýta auðlindir samfélagsins til matarræktunar. Þriðja grunnstoðin felst svo í því að halda uppi virku samtali um jafnrétti milli allra í samfélaginu.

Women Power vinnur því með íbúum í samfélaginu til að stuðla að opnum umræðum um jafnréttismál, til dæmis með því að halda svokallaðar ‘barbershop’ ráðstefnur á grundvelli verkefnisins HeforShe, og þannig gera öllum ljósan ávinninginn af því að valdefla konur. Samtökin leggja einnig áherslu á að eiga í nánu samstarfi við yfirvöld á svæðinu til að tryggja varanlegar og heildstæðar breytingar.

Sérstaða Women Power felst einna helst í frumkvöðlastarfi samtakanna. Við vinnum með konum á svæðinu að nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi sem eykur sjálfstæði og atvinnuöryggi kvennanna.Frumkvöðlanámskeið, þekkingarmiðlun og framboð á lánum til að fjármagna góðar hugmyndir eru hluti af því sem samtökin gera til að styðja konur í samfélaginu til að ekki einungis skapa fjölskyldum sínum fjárhagslegt öryggi heldur einnig til að vera áhrifavaldar í eigin lífi og skapa sér tækifæri á eigin forsendum. 

Women Power starfa eins og er í þorpinu Bashay í Tanzaníu. Hugmyndafræði samtakanna hefur skilað góðum árangri fyrir konurnar á svæðinu sem og samfélagið í heild sinni. Með stuðningi einstaklinga og fyrirtækja stefnum við á að víkka út starfsemina og framkvæma hugmyndafræðina á fleiri svæðum innan Tanzaníu sem og annarra landa. Með því að efla konur, eflum við heilu samfélögin og heiminn sjálfan. 

Hefur þú áhuga á að gerast félagi í samtökunum?

Sendu tölvupóst á netfangið womenpower@womenpower.is.

Stjórn og framkvæmdanefnd

Stjórn samtakanna er skipuð þremur stjórnarmeðlimum og einum varamanni. Kosið er í stjórn á aðalfundi samtakanna ár hvert og hafa allir skráðir félagsmenn atkvæðisrétt. Stjórn ber meðal annars ábyrgð á stefnumótun samtakanna og að tryggja gæði þess starfs sem samtökin standa að. 

Stjórn situr einnig í framkvæmdanefnd samtakanna, en framkvæmdanefnd er starfshópur sem heldur meðal annars utan um fjáröflun og kynningarmál samtakanna. Auk stjórnar sitja í framkvæmdanefnd einstaklingar sem hafa brennandi áhuga á jafnréttismálum og frumkvöðlastarfi. 

Öll þau sem starfa fyrir hönd Women Power deila þeirri hugsjón að jafnrétti og aukin tækifæri kvenna séu lykillinn að bættum heimi fyrir okkur öll.

Anna Elísabet Ólafsdóttir

Stjórn & framkvæmdanefnd

Anna Margrét Hrólfsdóttir

Stjórn & framkvæmdanefnd

Hjördís Eva Þórðardóttir

Stjórn & framkvæmdanefnd

Signý Óskarsdóttir

Framkvæmdanefnd & varamaður í stjórn

Vala Karen Viðarsdóttir

Framkvæmdanefnd & persónuverndarfulltrúi

Esther Hallsdóttir

Framkvæmdanefnd

Viðar Viðarsson

Framkvæmdanefnd

Viltu styrkja gott málefni?

Með stuðningi getum við stækkað starfsemina

Scroll to Top